Birki finnst í Bræðraskeri Breiðamerkurjökuls

Kárasker reis úr jökli uppúr 1930, þar hafa fundist 71 tegund æðplantna
Kárasker reis úr jökli uppúr 1930, þar hafa fundist 71 tegund æðplantna

Nýlokið er leiðangri að meta framvindu í föstum mælireitum í jökulskerjum Breiðamerkurjökuls. Verkefnið hófst á sjöunda áratug síðustu aldar og var sett á fót af Eyþóri Einarssyni grasafræðingi við Náttúrufræðistofnun Ísland og Hálfdáni Björnssyni náttúrufræðingi á Kvískerjum í Öræfum. Verkefnið var lengi vistað á Náttúrufræðistofnun Íslands en er nú unnið í samstarfi Náttúrustofu Norðurlands vestra og Landbúnaðarháskóla Íslands.

 

Vaktaðir eru fastir reitir sem staðsettir voru árið 1965. Tíu reitir voru staðsettir í Káraskeri (kom úr jökli um 1936) en þrír reitanna sem upphaflega voru settir út í Káraskeri hafa horfið, flestir vegna skriðufalla. Tíu reitir voru staðsettir í Bræðraskeri sem 1965 var nýlega komið úr kafinu, árið 2005 var svo 10 reitum bætt við í nýlegu skeri sem nefnist Maríusker en það sker er staðsett mun nær Breiðamerkurfjalli en fyrrnefndu skerin tvö.

reitur 7

Gróðurþekja metin í reit 7 í Káraskeri, fjallavíðir (Salix arctica) ríkjandi tegund í reitnum.

 

Fjallað er ýtarlega um rannsóknir á framvindu gróðurs í Kára- og Bræðraskeri í Náttúrufræðingnum árið 2020.

 

Samhliða því sem gróður er greindur og þekja hans metin í föstu reitunum hafa leiðangursmenn augun opin fyrir nýjum tegundum sem kunna að hafa numið land í skerjunum. Kom ánægjulega á óvart að rekast á birkiplöntu í Bræðraskeri. Næstu vaxtarstaðir birkis eru víðs fjarri eða á Kvískerjum (19 km) eða í Steinadal (23 km). Óvíst er hvernig birkifræ hefur borist í Bræðrasker en þess má geta að rjúpur halda til í skerinu og gætu þær mögulega borið með sér birkifræ eða rekla með fræjum, annaðhvort útvortis eða innvortis. Það vekur ekki síður athygli að vaxtarstaður birkisins er í u.þ.b. 600 metra hæð yfir sjávarmáli.

 birki

Birkiplanta sem fannst í Bræðraskeri, með henni vex fjallasveifgras (Poa alpina)

Fimm nýir landnemar fundust í Maríuskeri og eru þá þekktar 47 æðplöntutegundir í Maríuskeri sem staðið hefur 23 ár uppúr jökli. Þekktar eru 62 æðplöntutegundir í Bræðraskeri og 71 tegund í Káraskeri en þau hafa verið undir beru lofti í 63 og 88 ár.

 

Á leið niður úr Maríuskeri gerðu leiðangursmenn stutt stopp í ungu skeri sem enn er ónefnt og fundust þar 20 æðplöntutegundir en það sker er einungis fjögurra ára.

 

Að leiðangrinum stóðu Bjarni Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands og Starri Heiðmarsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra. Með í för voru einnig Jóhannes Bjarki Urbancic Tómasson starfsmaður Umhverfisstofnunar, Daniel Roth frá Bernarháskóla í Sviss auk feðganna Tomas og Milan Matti frá Svíþjóð.

braedrasker

Bræðrasker hefur stækkað ört síðustu ár og nýverið kom í ljós nokkurs konar framlenging á skerinu til suðausturs.