Blað- og flatmosar hýsa ólíka örverubíótu og sveppafungu.

Að fjallabaki þar sem hugað er að vænlegum sýnatökustöðum.
Að fjallabaki þar sem hugað er að vænlegum sýnatökustöðum.

Nýbirt er vísindagrein, unnin í samstarfi við örverufræðinga á Spáni, sem afhjúpar fjölbreytileika baktería og sveppa sem vaxa á, í og undir mosa á hálendi Íslands. Rannsóknin byggir á alls 15 sýnum sem safnað var að Fjallabaki sumarið 2017 en sýnum var safnað á berum jarðvegi auk þess sem safnað var sýnum af jarðvegi undir blaðmosanum melagambra og flatmosanum heiðahélu en einnig var sýnum safnað af mosunum sjálfum. Hvorutveggja mosarnir eru áberandi á hálendi Íslands og mynda þar stundum einsleit gróðurlendi. Vitað er að ýmsar sveppa- og bakteríutegundir lifa í og á mosum og myndar til að mynda heiðahélan áberandi skán víða þar sem snjór er stöðugur yfir vetrartímann sem talið er til marks um tilvist ýmissa blábaktería í sverðinum.  

Rannsóknin fól í sér sameindafræðilega greiningu þar sem allar DNA leifar sem tilheyra annaðhvort svepparíkinu eða bakteríum voru raðgreindar. Niðurstöður sýna m.a. mun meiri breytileika á tegundasamsetningu sveppa milli ólíkra búsvæða en hjá bakteríunum. Þegar lagt var mat á vistfræðilegt hlutverk einstakra sveppategunda kom í ljós að u.þ.b. helmingur greindra tegunda lifir rotlífi og um 20% eru sýklar sem herja á plöntur. Í ljós kom að melagamburmosinn hýsir talsvert fleiri tegundir sveppa en heiðahélan.