Bleikjan í Vatnshlíðarvatni og áhrif hnattrænnar hlýnunar. Ný vísindagrein í Conservation Genetics Resources.

Silfraða bleikjuafbrigðið Vatnshlíðarvatni (silver form). Mynd Bjarni Jónsson
Silfraða bleikjuafbrigðið Vatnshlíðarvatni (silver form). Mynd Bjarni Jónsson

Búist er við mikilli hækkun hitastigs á norðlægum slóðum í framtíðinni. Þær breytingar gætu haft afdrifarík áhrif á umhverfisaðstæður og búsvæði margvíslegra tegunda lífvera. Ein þeirra tegunda er bleikjan sem er mikilvæg til veiða og einnig sem hluti margra norðlægra vistkerfa. Með því að bera saman nokkra lykilerfðaþætti bleikjustofna á útbreiðslusvæði tegundarinnar var dregið upp erfðafræðilegt kort sem verður hægt að leggja til grundvallar við mat á erfðafræðilegum breytingum stofna vegna hækkunar hitastigs og breyttra umhverfisþátta í framtíðinni. Bleikjan í Vatnshlíðarvatni varð fyrir valinu hvað Ísland varðar, en auk þess voru notaðir bleikjustofnar frá Grænlandi og Skandínavíu. Verkefnið var samstarfsverkefni Árósaháskóla, Náttúrustofu Norðurlands vestra, Náttúrufræðistofnunar Grænlands og heimskautaháskóla Noregs. Greinina sem kom út í desember 2017, má nálgast hér: Single nucleotide polymorphism markers for analysis of historical and contemporary samples of Arctic char (Salvelinus alpinus)