Búrhvalstarf rak við Blönduós

Sýni tekin úr búrhvalnum
Sýni tekin úr búrhvalnum

Náttúrustofa Norðurlands vestra gerði í dag rannsóknir á búrhval sem rak við Blönduós. Dýrið reyndist vera 12,66 m búrhvalstarfur. Dánarorsök er ókunn og var dýrið tilltölulega ferskt og án áverka. Bjarni Jónsson forstöðumaður Náttúrustofu NV ásamt Ágústi Bragasyni umsjónarmanni tæknideildar Blönduósbæjar, mældu dýrið og tóku vefjasýni til erfðafræðilegra rannnsókna, sjúkdómagreininga og mögulega fleiri efnagreininga. Þá var gríðarstór kjálki með tönnum einnig tekinn til rannsókna og naut Náttúrustofan aðstoðar Blönduósbæjar og slökkviliðs við þá aðgerð. Sýnin munu svo verða greind hjá Hafrannsóknastofnun. Búrhvalurinn verður fjarlægður, enda á óheppilegum stað við þéttbýli. Búrhvalinn rak á fjörur við Blönduós nú í vikunni og varð hans fyrst vart í gærkveldi. Það var íbúi í gamla bænum, Stefán Haraldsson sem tók fyrstur eftir hvalnum, en hann blasir nánast við útum stofugluggan á heimilinu. Það eru ungir búrhvalstarfar sem helst halda sig við Íslandsstrendur, en tarfarnir geta náð 15-20 m lengd fullvaxnir og orðið 45-57 tonn að þyngd. Kýrnar sem halda sig á öðrum slóðum ásamt kálfum, verða 11-13 m langar og geta orðið 20 tonn að þyngd.