Eitt tilfelli Spánarsnigils á Sauðárkróki

Fyrsti Spánarsnigillinn sem vitað er af á Sauðárkróki barst til náttúrustofunnar í júní 2016. Hafði hann borist með stjúpum sem keyptar voru á Akureyri. Var öllum stjúpum úr sömu sendingu frá gróðurhúsi eytt af versluninni í kjölfarið til að koma í veg fyrir að fleiri slíkir innfluttir sniglar, sem líta má á sem óværu í görðum, bærust ekki þaðan. Ennfremur var gróðurhúsinu sem spánarsniglarnir voru raktir til gert viðvart. Það er mikilvægt að fólk sé vel á verði sjái það slíka óboðna gesti og tilkynni það, svo hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafann til að torvelda útbreiðslu þeirra.

Spánarsnigill ber ekki kuðung, er rauður, rauðbrúnn eða rauðgulur að lit og getur náð allt að 15 sm lengd.  Hann er uppruninn á Íberíuskaga og hefur borist þaðan til svæða í mið og vestur Evrópu síðustu 60 árin, að talið er af mannavöldum. Á Íslandi fannst Spánarsnigill fyrst í vesturbæ Reykjavíkur í ágúst 2003 og á Ólafsfirði ári síðar og hefur síðan sést árlega. Snigillinn hefur haldið áfram að berast út um landið og var kominn á Vestfirði 2008. Spánarsnigill er nánast alæta og er sagður éta allt frá skrautblómum, kryddjurtum, matjurtum, aðra snigla, hræ og dýraskít. Sniglarnir geta fjölgað sér hratt, eru tvíkynja og geta bæði frjóvgað sjálfa sig og aðra snigla. Á vetrum grafa þeir sig niður til dvala en eru viðkvæmir fyrir miklum frosthörkum. Það er mikilvægt að reyna að halda útbreiðslu Spánarsnigils í skefjum, bæði á milli svæða, sem hann berst aðallega með flutningi plantna eða úr sendingum gróðurhúsa þar sem hann hefur stungið sér niður. Eins þarf að gæta þess að hann berist ekki milli garða þar sem vart verður við hann. Ráð til að varna útbreiðslu Spánarsnigils er að finna á heimasíðu Matvælastofnunar.