Finnst ein lausnin á matvælavanda heimsins í gömlum túnum eða hreinlega úti í móa?

Sýning um villtar plöntur sem náskyldar eru nytjaplöntum verður formlega opnuð í Glaumbæ sunnudaginn…
Sýning um villtar plöntur sem náskyldar eru nytjaplöntum verður formlega opnuð í Glaumbæ sunnudaginn 19. júní n.k. Mynd: E.Ó.Þ.

Sýningin fjallar um villtar plöntur sem eru náskyldar landbúnaðarplöntum. Þetta eru villt jarðarber, bláber og kúmen ásamt ýmsum grösum. Fjölbreytni þessara villtu jurta og skyldleiki þeirra við landbúnaðarplöntur gerir okkur kleyft að kynbæta þær síðastnefndu og laga þær að breyttum skilyrðum sem tengjast meðal annars loftslagsbreytingum. Þannig tengir sýningin inn á málefni eins og loftslagsvána, líffræðilegan fjölbreytileika og síðast en ekki síst fæðuöryggi.

Bláhveiti, Elymus kronokensis, er ein tegundanna sem fjallað er um en tegundin er útbreidd á Norðurlandi frá Austur-Húnavatnssýslu í vestri til Suður-Þingeyjarsýslu í austri. Einkum er tegundin algeng í innanverðum Skagafirði og Eyjafirði. Sýni af bláhveiti, en tegundin er fjarskyld hveiti,  var safnað sunnan við Glaumbæ og hefur erfðefni sýnisins verið einangrað auk þess sem fræ af sömu plöntu er á leiðinni til varðveislu í fræsafninu á Svalbarða sem Norræni genabankinn á aðild að.

Sýningin er þegar komin upp en verður formlega opnuð sunnudaginn 19. júní n.k. en þá mun Byggðasafnið einnig opna tvær aðrar sýningar, þ.e. „Íslenskir þjóðbúningar og pilsaþytur“ sem er sýning í Áshúsi, unnin í samstarfi við Pilsaþyt og „Torfbærinn: heimili og vinnustaður“ frá Skottu kvikmyndafjelagi. Opnunin verður kl 14:00.