Gleðileg jól!

mynd Silkitoppa EÓÞ.
mynd Silkitoppa EÓÞ.

Á myndinni er fullorðin silkitoppa. Silkitoppur flækjast á nokkurra ára fresti til Íslands í mismiklum mæli. Þetta eru afar fallegir og spakir fuglar sem koma gjarnan í garða þar sem vaxa reynitré enda eru silkitoppurnar sólgnar í reyniber en geta líka farið í berjamó ef nóg er af bláberjum og krækiberjum.

 Silkitoppur búa á breiðu belti umhverfis norðurhjara veraldar. Heimkynni þeirra á sumrin eru barrskógabeltið austur um Lappland, Síberíu og í Kanada. Á sumrin veiða silkitoppur gjarnan ýmis skordýr sem þær grípa jafnan á flugi og þar á meðal hinar óvinsælu moskítóflugur. Á veturna flakka silkitoppur víða í leit sinni að berjarunnum og reynitrjám. Í sumum árum, þegar lítil uppskera er af berjum, þá fara silkitoppurnar á flakk og sjást víðar og lengra frá sumarheimkynnum sínum en ella. Í slíkum árum má gjarnan vænta heimsókna af silkitoppum hérlendis. Síðastliðið haust undir lok október fóru silkitoppur að sjást víða um land. Á Norðurlandi vestra sáust silkitoppur á Sauðárkróki, Skagaströnd, Blönduósi og Hvammstanga. Þær sóttu strax mikið í garða þar sem fuglum eru gefin epli og rúsínur.