Skeljaskóf er flétta sem finna má um allt land en sérstaklega algeng er hún um sunnan- og vestanvert landið. Fléttur eru sambýli svepps og ljóstillífandi lífveru sem oftast er grænþörungur þó töluvert algengt sé að blábakteríur, löngum nefndar blágrænir þörungar, sjái fléttusambýlinu fyrir orku. Lítill hluti fléttna býr síðan við þann munað að innihalda bæði grænþörunga og blábakteríur og er skeljaskófin dæmi um slíka fléttu. Þal skeljaskófar er hvítleitt eða grátt og inniheldur grænþörung auk þess sem sjá má dekkri bletti á yfirborðinu sem marka svonefndar hraufur. Hraufur eru útbrot sem myndast við að miðlag fléttunnar, með þörungafrumum, brýst út og gerir fléttunni þannig kleift að dreifa báðum hlutum sínum þegar lítil korn losna úr útbrotunum og annað hvort fjúka eða berast með öðrum lífverum á ónumin svæði. Í miðju hverrar skeljaskófar er áberandi rauðbrún hnyðla sem inniheldur blábakteríur en skeljaskóf er dæmi um fléttu sem mynduð er af þríbýli asksvepps, grænþörungs og blábakteríu. Blábakteríur þríbýlisfléttna virðast einkum gegna hlutverki við nám niturs úr andrúmslofti meðan grænþörungar fléttunnar sinna ljóstillífun.