Ísabrot

Í farvegi Blöndu við Hrútey hefur safnast upp mikil og þétt íshrönn af brotnum ísjökum og situr hún …
Í farvegi Blöndu við Hrútey hefur safnast upp mikil og þétt íshrönn af brotnum ísjökum og situr hún föst en nær allt rennsli árinnar liggur um syðri farveginn. Litlu hefur mátt muna að ísinn gæti laskað nýju göngubrúna yfir ána og þá gömlu sem liggur aðeins neðar.

Undanfarna daga hafa ár víða um land verið að ryðja sig í hlýindum og vatnsviðri. Kuldar í desember og janúar voru langvarandi og frost víða mikið, sérstaklega inn til dala. Á Norðurlandi vestra voru þá allar ár lagðar og ísinn víða um 60-80 cm þykkur og sumstaðar jafnvel allt að 120 cm á þykkt. Þegar að ísinn á ánum brotnar upp og ryðst fram með vatnsflóðum geta myndast miklar klakastíflur og vatn borist upp á tún og árbakka og um allar eyrar. Með vatninu berast svo ísjakar en í þeim er oft nokkuð af grjóti úr árbotninum. Um áhrif slíkra flóða þarf ekki að fjölyrða en þau eru geta verið töluverð, bæði á lífríki ánna og næsta umhverfi þeirra. Í sumum tilfellum verður tjón á mannvirkjum svo sem vegum og brúm líkt og átti sér stað í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu nýverið. Um áhrifin á lífríkið þegar að ísjakahrannir ryðjast fram og velta um í ánni má gera sér í hugarlund að botn árinnar skrapast víða upp og hnullungagrjót velkist um í ánni. Lirfur mýflugna og vorflugna ásamt vatnabobbum gætu þá orðið illa úti á ákveðnum svæðum og það sama gæti átt við um seiði laxfiska en einnig hornsíli. Grunnstingull í ám getur einnig komið við sögu en grunnstingulinn er ís sem vex frá botninum upp í vatnsbol árinnar, útfrá bökkum og á steinum í botninum.

Þegar að svo háttar má gera ráð fyrir að í lífríki áa geti orðið nokkrar sveiflur milli ára sem markast af stærð og tíðleika slíkra vetrarflóða með miklum ísruðningum. Síki og kýlar meðfram ám ásamt hliðarlækjum verða líklega fyrir litlum áhrifum enda eru síkin, lækir og tjarnir við ár ekki útsett fyrir þessum ísflóðum jakaruðnings. Mikil framræsla mýra meðfram ám getur haft töluverð áhrif á skaðsemi flóða í ám enda skortir þá nokkuð á náttúrulegt votlendi sem skapar lífríkinu skjól.

 

Botngrjót í ísjaka úr Blöndu. Mynd Ines Meier.

Botngrjót í ísjaka. Mynd Ines Meier.