Jólakveðja frá Náttúrustofu Norðurlands vestra

 

Jólamynd NNv var tekin í júlí síðastliðnum í leiðangri Náttúrustofunnar ásamt samstarfsfólki frá Landbúnaðarháskólanum til Esjufjalla. Esjufjöll eru mynduð af fjórum fjallshryggjum og fyrir miðri mynd sést vestasti hlutinn sem nefnist Vesturbjörg. Hægra megin á myndinni eru síðan Skálabjörg en enn austar, og utan myndar, eru síðan Esjubjörg og Austurbjörg. Vinstra megin á myndinni gnæfa síðan Mávabyggðir upp af jöklinum. Fjallað var um leiðangur sumarsins í veglegri grein í Heimildinni, sem lesa má hér.

 

Esjufjöll, sem rísa ofanvert í Breiðamerkurjökli, eru jökulsker. Jökulsker nefnast fjallstoppar sem rísa uppúr jöklum og fer þeim fjölgandi með hlýnandi loftslagi. Í Esjufjöllum hefur verið fylgst með breytingum á gróðri frá 2006. Neðar í Breiðamerkurjökli rísa yngri jökusker úr jökulskildinum, Kárasker birtist 1936 og uppúr 1960 kom síðan Bræðrasker úr kafinu. Á Káraskeri og Bræðraskeri voru fastir reitir staðsettir árið 1965 og stóð Eyþór Einarsson, grasafræðingur, ásamt Hálfdáni Björnssyni á Kvískerjum að þeim rannsóknum. Rannsóknum Eyþórs og Hálfdáns hefur verið framhaldið í samstarfi Bjarna Diðriks Sigurðssonar og Starra Heiðmarssonar síðan snemma á þessari öld. Greint var frá niðurstöðum þeirra rannsókna í Náttúrufræðingsgrein 2019 sem nálgast má hér

 

Myndina tók forstöðumaður Náttúrustofunnar, Starri Heiðmarsson.