Kortlagning fugladauða og fuglakóleru á Skaga

Mesti fugladauði vegna fuglakóleru við dýjakróka
Mesti fugladauði vegna fuglakóleru við dýjakróka

Að beiðni Matvælastofnunar brást Náttúrustofan við útkalli vegna mikils fugladauða í æðarvarpinu á Hrauni á Skaga þann 15. júní sl. Sláandi fugladauði blasti strax við á meginvarpsvæðinu. Farið var víðsvegar um æðarvarpið og jaðra þess til að kanna hvar væru dauðir eða veikir fuglar. Langmesti fugladauðinn var þar sem varpið er þéttast og var aðkoman slæm, þar sem kollur lágu jafnvel nýdauðar á hreiðrum. Mestur fugladauði virtist hafa orðið í tveimur hrinum, fjöldi nýdauðra fugla nær bæjunum og mest við dýjakróka, og svo fyrir svo sem viku fyrr og aðeins fjær, en þó í hjarta æðarvarpsins. Einnig fundust stöku dauðir fuglar í jöðrum varpsins og þar sem það var ekki eins þétt og virðast þeir flestir hafa drepist í fyrri hrinunni. Alls fundust dauðir nálægt 100 æðarfuglar, mest kollur en einnig eitthvað af blikum. Um 10 mávar fundust einnig dauðir, mest í og við dýjakrókana á því svæði sem varpið er þéttast. Höfðu þeir einhverjir verið að kroppa í dauða fugla. Einnig fundust tvær dauðar gæsir.

Eftir að æðarfuglinn verpir, fara kollurnar lítið frá hreiðrunum fyrr en eggin klekjast út og þá helst til að komast í drykkjarvatn, en lifa mest á þeim orkuforða sem fuglarnir hafa. Æðarkollur geta þannig gengið á líkamsþyngd sína að þær léttist um allt að 30% á varptímanum. Blikarnir hópa sig meira í nágrenninu og hluti þeirra yfirgefur fljótlega varpsvæðið. Mávarnir þvælast um með ströndinni og geta því farið á milli varpa.

15 æðarfuglum, 12 kollum og 3 blikum var safnað af náttúrustofunni til frekari greininga, ásamt 5 mávum. Var farið með fuglana á Tilraunastöð HÍ í meinafræðum að Keldum. Gerðar voru margvíslegar prófanir á sýnum, fyrst hvort um fuglaflensu væri að ræða, sem reyndist ekki vera. Sýni úr fuglum staðfestu hinsvegar að þeir væru sýktir af bráðsmitandi fuglakóleru, sem berst auðveldlega fugla á milli, ekki síst með fugladriti ef fuglar eru í návígi, svo sem við vatnsból og með því að kroppað sé í hræ dauðra fugla.

Tekin voru vatnssýni á nokkrum stöðum úr vötnunum tveimur eða sjávarlónunum sem liggja að æðarvarpinu á Hrauni, Hópinu og Þangskálavatni og dýjakrókum fyrir miðju varpinu sem fuglinn sækir í eftir drykkjarvatni, ekki síst kollurnar sem liggja á hreiðrum. Þá voru einnig tekin jarðvegssýni þar sem fugladauðinn var mestur. Fuglakóleru bakterían getur lifað af í vatni í 3-4 vikur og mánuð í jarðvegi. Vatns,- og jarðvegssýni fóru til greininga hjá Sýni ehf. Ekki fundust neinar bakteríur, eða annað sem orsakað gæti sýkingu, í vatnssýnum eða jarðvegssýnum sem náttúrustofan safnaði og greind voru.

Náttúrustofa NV vinnur nú að því í samvinnu við Matvælastofnun og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum að kortleggja betur fugladauðann í æðarvarpinu á Hrauni. Mikilvægt er að kortleggja tilfelli sem þetta til að skilja betur faraldursfræðilega þætti með tilliti til lífsferla tegundanna og vistsamfélaganna sem þær tilheyra, svo hægt verði betur að bregðast við og reyna að koma í veg fyrir útbreiðslu slíkra sjúkdóma. Nánar verður gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknanna síðar.