Náttúrustofan hlýtur styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til refarannsókna

Melrakkann, eina upprunalega landspendýr Íslands, er víða að finna í íslenskri náttúru. Rannsaka á s…
Melrakkann, eina upprunalega landspendýr Íslands, er víða að finna í íslenskri náttúru. Rannsaka á stöðu hans í skagfirskum vistkerfum í sumar með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Náttúrustofa Norðurlands vestra í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands og sveitarfélagið Skagafjörð hlýtur styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka refi og hlutverk þeirra í vistkerfum Skagafjarðar. Styrkurinn verður nýttur til að ráða háskólanema til sumarstarfs þar sem tekin verða saman gögn yfir þekkt refaóðul og ábúð þeirra auk upplýsinga um unna refi. Sömuleiðis verða söguleg gögn könnuð með tilliti til möguleika á nýtingu þeirra gagna. Leitað er að námsmanni með grunn í líffræði eða öðrum umhverfistengdum greinum. 

Starfsaðstaða verður á Sauðárkróki en verkefnið felur einnig í sér vettvangsferðir vegna rannsóknanna. Nánari upplýsingar veitir Starri Heiðmarsson, forstöðumaður Náttúrustofu Norðurlands vestra (starri@nnv.is, 6632650) en einnig má hafa samband við Ester Rut Unnsteinsdóttur spendýrafræðing hjá NÍ (ester@ni.is) og Kára Gunnarsson umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa hjá Skagafirði (kari@skagafjordur.is). Umsóknarfrestur er a.m.k. til 25. apríl og skal skila umsókn ásamt ferilskrá á nnv@nnv.is.