Norðanáhlaup og flækingsfuglar úr suðri

Mikið af svartþröstum barst til Norðurlands með óveðri síðustu viku. Hér má sjá karlfugl gæða sér á …
Mikið af svartþröstum barst til Norðurlands með óveðri síðustu viku. Hér má sjá karlfugl gæða sér á epli á trjágrein. Mynd: Einar Ó. Þorleifsson

Stór og djúp lægð var austur af landinu um miðbik síðustu viku. Svo virðist vera sem þessi mikla lægð hafi kippt með sér þó nokkuð af farfuglum sem væntanlega hafa verið á leið yfir Norðusjó milli Bretlandseyja, Danmerkur og Noregs. Sennilegast verður að teljast að fuglarnir hafi í fyrstu borist langt í norður og svo smám saman rangsælis um lægðarmiðjuna frá norðri til vesturs og svo aftur til suðurs upp að norðurströnd Íslands. Athyglisvert er að flækingsfugla varð ekki vart í Færeyjum í kjölfar veðursins líkt og hérlendis. Mest hefur orðið vart við fuglakomurnar á norðaustanverðu landinu og alla leið vestur til Skagafjarðar. Flestir fuglanna eru svartþrestir og virðast nokkur þúsund slíkir hafa borist hingað á land. Sérstaklega kom mikið af svartþröstum heim að bæjum í Hegranesi um helgina síðustu. Fuglarnir fóru inn í útihús eða norpuðu við heymoð utandyra. Af öðrum fuglategundum sem sést hafa eru mistilþröstur, söngþröstur, gráþröstur, hagaskvetta og sönglævirki af hópi spörfugla. 

Veðurkort frá Veðurstofu Íslands

Veðurkort frá Veðurstofu Íslands sýnir óveðursspána. Vindar blása rangsælis kringum lægðarmiðjuna, frá Bretlandseyjum og langt norður fyrir landið áður en þeir berast hingað til lands.

Vaðfuglar voru einnig á ferðinni og ber þar helst að geta vepju, skógarsnípu og dvergsnípu. Sumar þessara fuglategunda verpa nú hérlendis, til dæmis skógarsnípan og svartþrösturinn sem eru með smáa stofna. Aðrar hafa orpið hér af og til eins og gráþröstur. Verði vorið milt og lifi fuglarnir af er ekki ósennilegt að varp þessara fuglategunda kunni að aukast hérlendis. Rétt er að geta þess að lítill stofn svartþrasta verpur nú árvisst á Norðurlandi vestra, helstu varpstaðirnir eru við Sauðákrók og Varmahlíð en einnig hefur orðið vart svartþresti að sumarlagi við Silfrastaði og Hóla í Hjaltadal. Svartþrestir verpa einnig á Skagaströnd, Blönduósi og á Hvammstanga.

Af öðrum fuglum sem fundist hafa á Norðurlandi vestra í vetur má nefna nokkrar tegundir. Gráþrestir hafa verið all víða í vetur, til dæmis á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd, Sauðárkróki, Varmahlíð og við Steinsstaði. Þá hefur verið glóbrystingur á Sauðárkróki. Við hveravatnsafrennsli hjá Laugarbakka í Miðfirði hafa sést skógarsnípa, dvergsnípa og átta hrossagaukar. Kynblendingur æðakóngs og æðarfugls hefur haldið til í vetur með æðarfuglum við innanverðan Hrútafjörð nærri bænum Hvalhöfða. Síðla hausts var ljóshöfðaönd með rauðhöfðaöndum á Flóðinu í Vatnsdal. Ljóshöfðaöndin er flækingsfugl frá Norður-Ameríku. Fálkar og ernir hafa víða sést. Fálkarnir hafa þurft að gera sér að góðu ýmsa fugla, til dæmis máfa þar sem almennt er frekar lítið af rjúpu. Smyrlar sjást víða en þeir elta mest hópa snjótittlinga. Fágætasti fuglinn sem fundist hefur í vetur var hánorrænn fugl af máfakyni sem nefnist ísmáfur sá fugl hélt til við höfnina á Sauðárkróki.

Til að hlúa að smáfuglunum er best að fóðra þá. Þrestir vilja helst margvíslega mjúka fæðu. Ágætt er að gefa epli og rúsínur en einnig er gott að gefa haframjöl vætt með matarolíu og brauðmola. Fyrir fræætur á einungis að gefa fræ, til dæmis hýðis- eða skurnlaus sólblómafræ eða önnur smærri fræ líkt og þau sem gefin eru búrfuglum eins og gárum. Kurlaður maís hentar hinsvegar fyrst og fremst snjótittlingum. Smáfuglarnir sækja einnig mikið í moð við sveitabæi.

Yann Kolbeinsson á Náttúrustofu Norðurlands lét góðfúslega í té ýmsar upplýsingar um komur fuglanna í Þingeyjasýslum, en miklar upplýsingar komu frá ýmsum heimildamönnum í Skagafirði og Húnavatnssýslunum. Við hjá náttúrustofunni erum ávalt áhugasöm um allar upplýsingar um fugla og annað er lítur að náttúrunni svo að allar ábendingar eru vel þegnar.