Ný grein um selaskoðun og ferðamenn

Nýverið birtist í tímaritinu „Ocean & Coastal Management“ grein um mun milli kynja hvað varðar mat á náttúruverðmætum og stjórnun með skýrskotun til selaskoðunar en á ensku er titill greinarinnar: „Gender difference in biospheric values and opinions on nature management actions: The case of seal watching in Iceland“. Höfundar eru Cécile M. Chauvat, starfsmaður NNV, Sandra M. Granqvist forstöðumaður selarannsókna hjá Selasetrinu og starfsmaður Hafrannsóknastofnunar og Jessica Aquino lektor við Háskólann á Hólum.

Rannsóknin byggir á spurningakönnun sem 597 ferðamenn svöruðu en einnig var byggt á fyrri rannsókn sem var birt 2021. Meðal niðurstaðna er að konur höfðu ákveðnari skoðun á viðfangsefninu og voru meðvitaðri um möguleg áhrif manna á seli. Sömuleiðis voru konur jákvæðari gagnvart flestum þeim stjórnunaraðgerðum sem lagðar voru til í spurningalistanum. Í greininni er ályktað að frekari þekking á kynbundinni afstöðu til verndaraðgerða sé mikilvæg eigi að byggja upp sjálfbæra náttúruferðamennsku. Hægt er að nálgast greinina hér til 3 mars n.k.

Náttúrustofa Norðurlands vestra á í góðu samstarfi við Selasetrið á Hvammstanga og Háskólann á Hólum og er þessi grein afrakstur þess samstarfs.