Ný stjórn NNv

Húsakynni Náttúrustofu Norðurlands vestra í „Gamla barnaskólanum“ við Aðalgötu 2.
Húsakynni Náttúrustofu Norðurlands vestra í „Gamla barnaskólanum“ við Aðalgötu 2.

Ný stjórn Náttúrustofu Norðurlands vestra, sem skipuð var í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna í vor, hélt sinn fyrsta fund í byrjun október. Stjórnin er skipuð fulltrúum þeirra sveitarfélaga á Norðurlandi vestra sem aðild eiga að Náttúrustofunni en það eru Skagafjörður, Sveitarfélagið Skagaströnd og Húnaþing Vestra. Í stjórn NNv sitja fjórir fulltrúar, tveir frá Skagafirði, Sigurður Bjarni Rafnsson og Jóhanna Ey Harðardóttir, Halldór Gunnar Ólafsson frá Skagaströnd og Elín Lilja Gunnarsdóttir úr Húnaþingi Vestra. Formaður stjórnar var kjörinn Sigurður Bjarni.

Á fundinum kynnti forstöðumaður, Starri Heiðmarsson, verkefni sumarsins fyrir stjórn. Náttúrustofan leggur áherslu á rannsóknir á náttúrufari á Norðurlandi vestra og hefur sinnt umfangsmiklum fuglatalningum, bæði á eigin vegum og í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands. Í sumar hefur náttúrustofan sömuleiðis sinnt vöktun skv. samningi við Náttúrufræðistofnun þar sem endurgreind voru vistgerðasnið sem sett voru út árin 1999-2013. Sömuleiðis er fylgst með þekktum steingervingastöðum á svæðinu. Þá hefur forstöðumaður fylgst með sjaldgæfum fléttum á suðausturlandi auk þess sem hann fylgist með landnámi fléttna í hinni tæplega 60 ára gömlu Surtsey. Þá er náttúrustofan í samstarfi við BioPol á Skagaströnd að vakta örplast í sjó auk þess að taka þátt í alþjóðlegu verkefni í samstarfi við Hólaskóla og Selasetrið á Hvammstanga.

Framtíðarverkefni náttúrustofunnar komu einnig til umræðu. Votlendi svæðisins hýsir mikilvæg vistkerfi og óþekktan líffræðilegan fjölbreytileika. Sérstaklega þarf að fylgjast með votlendissvæðum á hálendinu sem geyma sífrera eins og Orravatnsrústir eða Guðlaugstungur en bæði svæðin voru heimsótt í sumar í tengslum við vöktun vistgerða.

Rekstur náttúrustofunnar er í jafnvægi og samþykkti stjórn þá tillögu forstöðumanns að halda opinn ársfund NNv snemma næsta ár þar sem íbúum svæðisins gefst tækifæri á að kynnast helstu verkefnum og niðurstöðum ársins.