Stjórn Náttúrustofu Norðurlands vestra hefur ráðið Starra Heiðmarsson sem forstöðumann Náttúrustofunnar, ráðning Starra er tímabundin til eins árs þar sem fráfarandi forstöðumaður hefur óskað eftir leyfi. Starri er með doktorspróf í grasafræði frá háskólanum í Uppsölum í Svíþjóð. Hann hefur undanfarna tvo áratugi starfað á Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands sem sérfræðingur og um áratugar skeið sem fagsviðsstjóri í grasafræði.
Í starfi sínu hefur Starri sinnt og borið ábyrgð á ýmsum verkefnum eins og rannsóknum á fléttufungu Íslands, vöktun fléttna í Surtsey, vöktun framvindu gróðurs á jökulskerjum Breiðamerkurjökuls og vöktun tindagróðurs í Öxnadal innan alþjóðlega verkefnisins GLORIA (Global Observation Research Initiative in Alpine Environments). Sömuleiðis hefur hann tekið virkan þátt í vistgerðarkortlagningu Íslands og vaktað og metið tegundir á válista. Starri hefur einnig tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi fyrir hönd Náttúrufræðistofnunar einkum á vegum CAFF (Conservation of Arctic Flora and Fauna) þar sem Starri hefur undanfarin ár starfað sem formaður þurrlendisstarfshóps CBMP sem tekur til vöktunar líffræðilegrar fjölbreytni á norðurhjara. Samhliða störfum sínum á Náttúrufræðistofnun hefur Starri sinnt kennslu við bæði Háskólann á Akureyri og Landbúnaðarháskóla Íslands að Hvanneyri. Hann hefur birt, bæði einn og í samstarfi við aðra, um þrjátíu greinar í alþjóðlegum tímaritum auk fjölmargra innlendra ritsmíða. Starri þekkir vel til náttúrufars á starfsvæði Náttúrustofunnar sem auk margháttaðrar reynslu hans gera hann vel í stakk búinn að sinna starfi forstöðumanns Náttúrustofunnar að mati stjórnar sem hlakkar til samstarfsins.