Nýr landnemi við Íslandsstrendur, ósakoli orðinn algengur við Húnaflóa og í Skagafirði

Ósakolar Platichthys flesus sem gengið hafa í ferskvatn. Mynd Bjarni Jónsson
Ósakolar Platichthys flesus sem gengið hafa í ferskvatn. Mynd Bjarni Jónsson

Síðustu ár hefur Náttúrustofa Norðurlands vestra staðið fyrir vöktunarrannsóknum á nýrri kolategund við ísland sem bæði finnst í sjó og fersku vatni. Ósakoli eða flundra, Platichthys flesus, er nýr landnemi við Íslandsstrendur. Hann fannst fyrst svo vitað sé við Ísland árið 1999. Talið var að ósakolar væru flækingar frá Færeyjum, en þar voru nyrstu útbreiðslumörk tegundarinnar. Bjarni Jónsson staðfesti fyrstu hrygningu ósakola við Ísland árið 2003. Síðan hefur tegundin haldið áfram að beiðast út kringum landið og stofnstærð að aukast. Fyrstu árin fannst hún aðeins við sunnanvert landið og á Faxaflóasvæðinu, síðan við Breiðafjörð, svo Vestfirði. Bera fór á tegundinni við Húnaflóa fyrir um áratug og nokkrum árum síðar í Skagafirði. Nú er orðið mjög mikið af ósakola víða í vötnum við ströndina bæði við Húnaflóa og Skagafjörð, sem tengjast sjó á Norðurlandi vestra. Hópið, Húnavatn og Miklavatn í Skagafirði eru dæmi um það.

 Ósakoli hrygnir í sjó en seiðin leita svo á ósasvæði, ísölt lón og ferskvatn, þar sem þau alast upp í 2-3 ár áður en þau fara aftur í sjó og halda þar áfram með lífsferilinn. Dæmi eru um að stærri ósakolaseiði gangi fleiri kílómetra upp í ferskvatns búsvæði. Landnám ósakola við Ísland felur í sér breytingar á vistsamfélögum á ósasvæðum áa og vatna. Ósakolinn finnst á svipuðum búsvæðum í vötnum, sjávarlónum, ám og lækjum og hornsíli, áll, urriði, bleikja og lax svo ekki sé talað um skörun hans við aðra sjávarfiska. Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu mála næstu árin, hvort ósakolinn haldi áfram að vaxa að stofnstærð og nema fleiri búsvæði. Eftir á að koma í ljós hvort að í fiskafánu landsins hafi bæst varanlega ný nytjategund.

 Misjafnt er í hvora áttina augu ósalúrunnar vendast og hafa að meðaltali um 30% þeirra vinstri vendni annarsstaðar á útbreiðslusvæði hennar. Íslensku fiskarnir samkvæmt okkar rannsóknum hafa hinsvegar mun lægri tíðni vinstri vendni eða um 5.2%. Munur hefur reynst vera á milli svæða, þó ekki alltaf marktækur,  þar sem 6.4% ósakola við Faxaflóa hefur vinstri vendni en aðeins 3.3% við Breiðafjörð, svo dæmi sé tekið. Þá er Norðurlandið enn annað svæði hvað þetta varðar. Lífshættir virðast einnig eitthvað mismunandi á milli landshluta. Til að mynda ganga ósakolaseiði mun fyrr á vorin upp á ósasvæði og vötn fyrir sunnan land og vaxa hraðar framan af, en hér fyrir norðan.