Páfuglafiðrildi ferðaðist frá Rotterdam til Sauðárkróks

Páfuglafiðrildi sem barst frá Hollandi til Sauðárkróks
Páfuglafiðrildi sem barst frá Hollandi til Sauðárkróks

Páfuglafiðrildi sem eru með stærstu og litríkustu fiðrildum sem finnast í Evrópu, og eru þar algeng, kom í ljós í dekkjagámi frá Hollandi. Náttúruleg heimkynni þeirra eru í norðurhluta Evrópu og þeim hluta Asíu þar sem er tempraðara loftslag alla leið niður til Japan. Þau er helst að finna í görðum, skógi vöxnum svæðum og skógarjöðrum. Fiðrildin eru af ætt Nymphalida og bera latínuheitið Inachis io eftir eingetinni konungsdóttur úr grískri goðafræði. Eitt af því sem er sérstakt við páfuglafiðrildi er að þau halda gjarnan tryggð við einn maka í gegnum mökunartímabilið. Þau leggjast í vetrardvala og makast svo að vori. Einkennandi fyrir fiðrildin eru augndílarnir á feykistórum vængjum þess sem gegna því árangursríka hlutverki að hræða afræningja. Lirfur fiðrildanna geta orðið 42 mm að stærð og nærast á laufum. Fullorðin páfuglafiðrildi, sem geta orðið 60 mm, karlflugur og 69 mm kvenflugur, að stærð, sækja næringu sína m.a í safa margvíslegra blóma.

Dekkjagámurinn sem fiðrildið tók sér ferð með var lestaður og lokað 28. sept. sl. og fór í skip 3. okt. Gámurinn var svo opnaður á Sauðárkróki 9. okt og kom þá fiðrildið í ljós. Benedikt Rúnar Egilsson verslunarstjóri hjá KS kom fiðrildinu í hendur Náttúrustofu NV þar sem það dvelur nú við góða heilsu. Eitthvað er um það að slík fiðrildi hafi verið að berast til landsins með vörusendingum erlendis frá. Fólk sem rekst á óvenjulega gesti af þessu tagi er hvatt til að hafa samband við Náttúrustofuna.