Rannsóknir í Litla Skógi og Sauðársvæðinu

Sumarið 2017 fóru fram margvíslegar rannsóknir á lífríki í Litla Skógi og í og við Sauðá á Sauðárkróki og verður þeim haldið áfram á árinu 2018. Í skjólinu og gróðurvininni í Litla Skógi þrífst margskonar líf. Það sama á við Sauðánna, dýralíf og fuglalíf. Búsvæði vatnalífs og fugla var endurheimt á kafla í Sauðánni fyrir nokkrum árum á svæðinu frá Verknámshúsi FNV og niður fyrir leikskólann Ársali. Áin rann þar í einum stokk, sem takmarkaði lífríki, auk þess sem ógeng ræsi fyrir fiska voru í henni þar sem hún rennur undir Skagfirðingabrautina. Áin hlykkjast nú niður þennan kafla, ræsin hafa verið lagfærð og tjarnir og hólmar prýða svæðið. Áhrifin á lífríkið láta ekki á sér standa, fleiri smádýr taka sér bólfestu og til eru orðin fleiri ákjósanleg búsvæði og skjól fyrir margvíslegar fulgategundir, auk þess sem sjóbleikja og jafnvel sjóbirtingur, getur nú numið land alla leið upp í Litla skóg, en þar var smávaxinn staðbundin bleikja fyrir. Fróðlegt verður að sjá hvernig endur og aðrar fulgategundir munu halda áfram að nýta sér svæðið.