Rannsóknir í Orravatnsrústum norðan Hofsjökuls

Suðurhluti Orravatnsrústa. Illviðrarhnjúkar og Miklafell/Hofsjökull í baksýn. Myndin sýnir 5 rústir …
Suðurhluti Orravatnsrústa. Illviðrarhnjúkar og Miklafell/Hofsjökull í baksýn. Myndin sýnir 5 rústir og rústatjarnir í flá/rústamýri.

Orravatnsrústir eru allstór gróðurvin á hálendinu í rúmlega 700 metra hæð yfir sjávarmáli. Hálendisvinin er vel gróin með fjölda smærri og stærri tjarna og fylgir lægðum í landslaginu. Gróðurvinin teygir sig frá Rústakvísl og Reyðarvatni þar sem vegurinn að Laugafelli liggur upp frá Skagafirði, en til suðurs í átt að Hofsjökli við Illviðrahnjúka og Miklafell.

Í Orravatnsrústum er að finna sífrera en sífreri kallast það þegar vetrarísinn í jarðveginum nær ekki að bráðna til fulls á sumrin. Mýrar með sífrera nefnast ýmist rústamýrar eða flár. Mýrar þessar eru einatt með mjög sérkennilegum landslagsgerðum er stafa frá áhrifum íssins og samdráttar eða þrýstingsáhrifa íssins sem hefur meira rúmmál en ófrosið vatn.
Rústir eru helsta einkenni þessarra mýra ásamt fjölda smátjarna. Rústirnar eru sumpartinn eins og risastórar þúfur sem rísa upp úr votlendinu. Rústirnar eru tíðum um 1,5 m á hæð en geta svo verið allt frá fáeinum metrum á lengd og breidd allt upp í tugi metra en stórar rústir eru einkennandi í Orravatnsrústum ólíkt því sem gerist í Þjórsárverum eða á Fljótsdalsheiði. Þegar rústin rís upp úr mýrinni byrjar hún jafnframt að þorna og rofna og fellur síðan saman og myndar nýja tjörn. Rústamýrar er nú óvíða að finna enda vill ísinn bráðna til fulls í mýrum eftir því sem veðurfar fer hlýnandi með hækkandi meðalhita. Á kuldatímabilum má gera ráð fyrir að rústamýrar hafi fundist hérlendis niður undir 300 m hæð í lok 19. aldar og á kuldatímanum um 1970 en í dag munu þær helst vera til í 650 - 700 metra hæð yfir sjávarmáli.
Lífríki rústamýranna á Íslandi er einstakt og fuglalíf mikið, t.d. finnast þar heiðagæsir, sendlingar, lóuþrælar og óðinshanar. Fálkar sjást tíðum og stöku sinnum fágætar snæuglur. Ernir eru alltíðir. Í tjörnunum er mikið af stærstu krabbadýrunum t.d. stutthalaflóm og skötuormum sem eru vinsælar fæðutegundir hávellu, duggandar og óðinshana. Það er ætlunin að hefja vöktun á lífríki Orrvatnsrústa í framtíðinni og mæla reglulega sífrera eða ísdýpt á sniðum. Enda munu rústamýrarnar verða afar mikilvægar á tímum loftslagsbreytinga á norðurslóðum.