Skýrsla um útbreiðslu kerfils á Hvammstanga

Náttúrustofa NV hefur gefið út skýrslu um útbreiðslu kerfils á og kringum Hvammstanga. Vart varð við mismikla dreifingu kerfils á mörgum stöðum vítt og breitt um þorpið og líka ofan við það. Víða er lúpína og eða njóli í bland og mynda þessar tegundir jafnvel stórar breiður. Ofan við þorpið er víða mikil útbreiðsla kerfils auk lúpínu og mynda á nokkrum stöðum þéttar breiður. Sunnantil við garðaúrgangaförgunarsvæði virðist plantan vera á góðri leið með að leggja undir sig enn stærra svæði en orðið er. Ljóst er að kerfillinn er nánast á víð og dreif um allt þéttbýlið og víðar en sýnt er á meðfylgjandi korti.

Val á leiðum og kostnaður við að uppræta skógarkerfil ræðst fyrst og fremst af því hversu greiðfært landið er og hversu auðvelt er að komast að því. Úðun með eitri úr stórvirkum vinnuvélum hentar best í þéttum breiðum. Beit hentar þar sem skógarkerfill er að nema land. Þar sem eru stakar kerfilsplöntur eða hann lítt útbreiddur getur gengið að stinga upp plöntur. Þar sem það er hægt, er það einna árangursríkasta aðferðin. Þar sem aðgengi er slæmt og land er torfært hentar handvirk eitrun. Úðun með eitri er langhagkvæmasta leiðin til eyðingar á skógarkerfli og má mæla með þeirri aðferð á svæðum sem öðru lífríki stafar takmörkuð hætta af slíku. Hún er þó engin allsherjarlausn heldur ein af mögulegum leiðum. Sjálfsagt er að nota aðrar aðferðir samhliða til að hefta útbreiðslu skógarkerfils. Við val á aðgerðum þarf að taka tillit til aðstæðna, svo sem annars gróðurs á svæðinu, umhverfissjónarmiða og viðhorfs almennings.