Vorið er komið og grundirnar gróa.

Heiðlóa. Mynd EÓÞ.
Heiðlóa. Mynd EÓÞ.

Undanfarna daga hefur verið hlýtt á Norðurlandi vestra. Farfuglar streyma til landsins. Helsingjar, grágæsir, heiðagæsir og álftir eru áberandi á túnum, vötnum og tjörnum. Lóur eru víða komnar í hópum og sandlóur og hrossagaukar allnokkrir mættir eins og má segja um stelkinn og jaðrakaninn sem fjölgar mikið þessa dagana.

Enn er einhver bið eftir þúfutittlingi, steindepli og maríuerlu. Af andfuglunum þá hafa flestar tegundir sést meðal annars tvö pör af hinni sjaldgæfu skeiðönd. Af öðrum fágætum öndum þá eru brandendur og grafendur ásamt gargöndum að tínast inn. Síðasti fuglinn til að koma er vanalega óðinshaninn en hann kemur ekki fyrr en undir lok maímánaðar.

Jurtaríkið er einnig að lifna við. Fyrstu plöntur til að blómstra eru allajafna steinbrjótstegundin vetrarblóm sem blómstrar fyrst í klettum á móti suðri þar sem hlýnar vel í sólinni. Vetrarblómið sem svo heitir á íslensku er einstaklega harðgerð jurt og ber þetta nafn vegna þess hversu snemma á árinu það blómstrar en aðal blómgunartíminn er þó í maí hérlendis. Í ölpunum hefur vetrarblóm fundist í 4505 mys. Vetrarblómið finnst einnig á nyrsta landskika jarðar sem er Kaffiklúbseyjan norðan Grænlands. Næst til að blómstra er vanalega hin agnarsmáa einæra vorperla með smáum hvítum blómum sem minna á perlur. Vorperlan er gjarnan á melastykkjum, oft við þjóðveginn, heimreiðar eða á malarplönum. Skarfakálið sem er í strandklettum þar sem gjarnan gætir áburðaráhrifa frá driti fugla er einnig snemmblómstrandi. Krækiberjalyng blómstrar ætíð snemma með agnarsmáum og óáberandi rauðleitum blómum.


EÓÞ.